Íþróttabraut – Haustönn 2020

Í áfanganum  verður fjallað um starfsemi mannslíkamans með áherslu á bein, liðamót  og vöðva. Sérstök áhersla verður lögð á þau líffæri og líffærakerfi sem tengjast hreyfingum mannslíkamans. Fjallað verður um bein, bönd og liðamót, liðfleti og liðpoka. Einnig verður fjallað um hreyfingu í liðamótum og stefnu hreyfinga. Fjallað verður um einstaka vöðva, upptök þeirra, festu og starf. Fjallað er um hugtök og grundvallaratriði hreyfifræðinnar og komið inn á tækni íþróttagreina.

Áfanginn byggir að stórum hluta á starfrænni hreyfifræði, þ.e. hvernig vöðvar, bein og liðamót líkamans koma við sögu í fjölbreyttum hreyfingum. Enn fremur er fjallað um rétta lyftitækni, starfsstellingar og hreyfingar við vinnu.

Undanfari: ÍÞF 1024

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur læri um hlutverk þjálfara og leiðbeinenda í íþróttastarfi, sérstaklega við þjálfun barna á aldrinum þriggja til tólf ára. Lögð er áhersla á skipulag þjálfunar, áætlanagerð og markmiðssetningu. Nemendur fá undir­stöðuþekkingu í kennslu- og aðferðafræði íþrótta og hvernig skuli bregðast við íþrótta­meiðslum. Fjallað er um mataræði íþróttamanna og áhrif fíkniefna á afkasta­getu og árangur. Áfanginn er bóklegur. Nemendur fá þjálfun í áætlanagerð og skipu­lag einstakra æfingastunda. Nemendur fá fræðslu um þjálfun barna og fullorðinna og um helstu þjálfunaraðferðir. Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur læri um uppbyggingu íþróttafélaga. Nemendur fái þjálfun í stjórnunarstörfum, s.s. að sjá um fundarsköp, stjórna fundum og skrásetja fundargerðir, læri um helstu hlutverk stjórnarmanna eins og hlutverk formanns, varaformanns, gjaldkera, ritara og meðstjórnenda. Nemendur læri um mikilvægi stefnumótunar og skrásetningar markmiða í félagsstarfi. Nemendur fái að kynnast ýmsum þáttum í almennu félagsstarfi, s.s. skipulagi og undirbúningi ferða, farar­stjórn og stjórnun kvöldvöku. Í áfanganum er einnig komið inn á samskipti heimila og frjálsra félaga, jafnrétti, vímuvarnarstefnu íþróttafélaga, hópstarf, ræðu­mennsku og stofnun félaga. Námið í áfanganum er jafngilt almennum hluta þjálfara 1 hjá ÍSÍ.